Fjögur folöld á tveimur dögum

Í gærmorgun voru þrjár hryssur kastaðar í stóðinu þegar út var komið. Jónína stóð stolt með brúnan hest undan Sæ frá Bakkakoti, Engilfín með ljósrauðstjörnóttan hest undan Þresti frá Hvammi og Jóna með frumburð sinn, rauðstjörnótta hryssu undan Kiljan frá Steinnesi.

Það var virkilega gaman að líta þessa gripi augum í morgunsárið að sjálfsögðu hvern öðrum fallegri. Engilfínarsonurinn fékk strax nafnið Gustur vegna vindsins sem blés kröftulega en nöfn á hin bíða betri tíma.

Til að kóróna allt þá var Bára gamla, blessunin köstuð í morgun.  Ætlaði greinilega ekki að láta sitt eftir liggja og kom með bleikstjörnótta hryssu undan Stála.  Loksins kom hryssa en  hún er alsystir Bleiks og Rauðs sem báðir eru reiðhestar hér á bæ.  Bleikur er næsthæst dæmda afkvæmið undan Stála og Rauð á að sýna í kynbótadómi í vikunni. Bleikstjarna verður vonandi arftaki móður sinnar þegar fram líða stundir.

 

Gustur frá Kjarri undan Þresti frá Hvammi

 

Jónína með hest undan Sæ frá Bakkakoti

 

Jóna með hryssu undan Kiljan frá Steinnesi

 

Myndatakan var svo erfið að sú litla ákvað að fá sér smá lúr í henni miðri

 

Bára með Stáladóttir

 

Lagt á ráðin um framtíðina...