Reiðhöllin tilbúin

25. janúar var reiðhöllin tilbúin, fullfrágengin að utan og innan.  Byggingin er límtréshús frá Límtré/Vírnet  16 x 40 m að stærð.  Framkvæmdir hafa gengið hratt og vel en fyrsta skóflustungan var tekin 5. október.

Það þótti við hæfi að Stáli væri fyrsti hesturinn sem í höllina gekk og var fjölskyldan í Kjarri og ¨sæðingargengið,“ Garðar, Páll, Helgi, Eggert og Gunnar,  viðstatt þá hátíðlegu athöfn. Stáli lét sér fátt um finnast og hefði gjarnan viljað fara hraðar yfir þegar Helgi reið honum járnalausum einn hring í höllinni. Að því loknu var skálað og etið smurt brauð og kókosbollur.

Það tekur smá tíma að átta sig á aðstöðubreytingunni. Nú skiptir veðrið engu, það er alltaf hægt að bregða sér á bak í höllinni.

Eggert og Ragna kynntu ný húsakynni fyrir hrossunum um helgina sem voru að vonum hálf hissa á breytingunni. En þau venjast fljótt og auðvitað þarf mannskapurinn líka að venjast nýjum aðstæðum.