Fleiri folaldafréttir

Mikið hefur verið að gera á folaldavaktinni undanfarið en við hafa bæst fjórar merar og einn hestur. Langt er síðan að hlutfallið hefur verið svona gott en undanfarin ár hafa hestfolöldin verið í miklum meirihluta. Enn eiga þó eftir að kasta þrjár merar.

Hagsæld kom með stóra og myndarlega rauða meri undan Stála en sú litla átti í talsverðum erfileikum með að ná niður í grasið.

 

Jóna kastaði jarpri meri undan Spuna frá Vesturkoti.

 

Eggert fann svo hana Flugu sína seint um kvöld nýkastaða með fallega rauða meri undan Spóa frá Kjarri. Nú er bara að bíða og sjá hvort hún verði grá.

 

Auðna kom svo einn morguninn með brúna meri undan Stála.

 

Eftir mikla bið þá kastaði Engilfín hennar Rögnu risastórum rauðstjörnóttum glófextum  hesti undan Konsert frá Korpu. Það skyggði aðeins á gleðina að það skyldi vera hestur en Engilfín hefur nú komið með þrjá hesta í röð.