Hrossarækt

Sagan

Helgi og Helga hafa bæði stundað hestamennsku frá því í barnæsku. Helga er uppalin á Kröggólfsstöðum í Ölfusi, dóttir Páls Sigurðssonar og Sigurbjargar Jóhannesdóttur en á þeim bæ snérist lífið um hestamennsku. Bíbi, móður Helgu sagði eitt sinn frá því að öll „vandamál“ Helgu í æsku hefði alltaf mátt lækna með orðunum „út á bak á ho, ho“. Þetta á við enn í dag.

Helgi er uppalinn á Selfossi. Hann fór ungur að venja komur sínar í hesthúsahverfið á Selfossi og var svo lánsamur að kynnast Einari heitnum Bjarnasyni. Hjá honum settist Helgi upp, fékk að moka og bregða sér á bak, hestadellan kviknaði fyrir alvöru og ekki varð aftur snúið.

Helgi og Helga kynntust á hestamóti og ekki löngu seinna, vorið l981 hófu þau búskap í Kjarri. Helga var þá í námi á Garðyrkjuskólanum á Reykjum en Helgi var nýútskrifaður úr framhaldsdeildinni á Hvanneyri. Bæði áttu þau ágæta reiðhesta og tóku þátt í flestu sem tengdist hestamennsku.

Fyrstu árin unnu Helga og Helgi töluvert útifrá, Helga aðallega við garðyrkju en Helgi sem ráðunautur í hrossarækt, jarðrækt og loðdýrarækt  hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Í tvö ár gegndi Helgi starfi forstöðumanns Stóðhestastöðvarinnar í Gunnarsholti.

 

Ræktunin

En starfsemin í Kjarri jókst hægt en sígandi, gróðrarstöðin stækkaði og hrossunum fjölgaði. Þrjár hryssur lögðu drögin að hrossaræktinni í Kjarri, Stjarna frá Selfossi, Snoppa frá Hlöðutúni og Drottning frá Kröggólfsstöðum.

Þruma dóttir Stjörnu  fæddi okkur 17  afkvæmi, 12 voru sýnd og þar af  hafa 7 hlotið fyrstu verðlaun. Snoppa  skilaði 7 „englabörnum“ og Drottning er amma Glampa frá Kjarri.

Ragna og Þruma frá Selfossi

Jónína frá Hala og Nunna frá Bræðratungu komu inn í ræktunina og áttu sín fyrstu fölöld l997 og hafa skilað okkur mörgum gullmolum.

Til gamans má geta þess að Hlaða-Blakkur frá Hlöðum er faðir Stjörnu og Snoppu og móðurafi Nunnu en Hlaða–Blakkur var undan Herði frá Kolkósi eins og Drottning frá Kröggólfsstöðum.

Lánið hefur leikið við okkur í ræktuninni og höfum við eignast marga góða gripi. Má þar nefna Gæfu, Stjörnu, Auðnu, Glampa, Þjark, Tinna og Spóa.

Hápunktur hrossaræktarinnar í Kjarr er án efa stóðhesturinn Stáli sem fæddur er  l998 og var sýndur á landsmóti á Vindheimamelum 2006. Þá hlaut hann  hæstu einkunn sem íslenskur stóðhestur hafði fengið. Síðan þá hefur Stáli notið vinsælda og hlaut hann l.verðlaun fyrir afkvæmi á landsmóti á Vindheimamelum 2011.

 

 

Í Kjarri fæðast  7-10 folöld á ári flest undan l. verðlauna hestum. Hrossin eru flest alin upp í Kjarri og sýnd ef tilefni er til en einnig er alltaf eitthvað selt af ungum trippum.

Markmiðið er að rækta alhliða hross, geðgóð og viljug.

Stóðhestarnir sem valdir hafa verið í ræktunina eru í flestum tilfellum sýndir 1. verðlauna hestar. Þekktir hestar í bakættum okkar ræktunar eru Otur frá Sauðárkróki, Þokki frá Garði, Galsi frá Sauðárkróki, Angi frá Laugarvatni og Gáski frá Höfstöðum.

Síðustu ár höfum við notað Stála frá Kjarri en einnig aðra góða gripi s.s. Þórodd frá Þóroddsstöðum, Sæ frá Bakkakoti og Huginn frá Haga.

Fjölskyldan í Kjarri er samhent í hestamennskunni. Börnin, Páll, Ragna og Eggert fengu öll hestabakteríuna með móðurmjólkinni og stunda hestamennskuna þegar tíminn leyfir.

Allir eiga sína ræktunagripi og víst er að „Hverjum þykir sinn fugl fagur.“